Innlent

Losnaði undan 1,7 milljóna króna ábyrgð

Samkomulag sem viðskiptaráðherra gerði við fjármálastofnanir árið 2001 kveður á um að skuldarar, sem fá meira en milljón að láni, verði að fara í greiðslumat. Fullorðinn maður losnaði undan sautján hundruð þúsund króna ábyrgð þar sem Landsbankinn lét undir höfuð leggjast að fylgja þessari verklagsreglu.

Árið 2006 tóku Brynjólfur Smári Þorkelsson og unnusta hans yfirdráttarlán hjá Landsbankanum á Akranesi til bílakaupa. Þau bjuggu þá í Bandaríkjunum og fengu sautján hundruð þúsund krónur að láni en bankinn krafðist ábyrgðarmanns.

„Við fengum tengdaföður minn til að skrifa undir þetta og þetta gekk eiginlega mjög hratt fyrir sig. Við vorum bara komin með peningana og bílinn á örskömmum tíma og allir voða ánægðir," segir Brynjólfur.

Brynjólfur starfar við sölu fasteigna og varð fyrir fjárhagslegum þrengingum þegar fasteignamarkaðurinn hrundi. Þau lentu í vanskilum með yfirdráttarlánið og í fyrra náði innheimta bankans hámarki. Brynjólfur segir að tengdaföður hans hafi verið hótað nauðungarsölu.

„Ég náttúrulega vildi ekki fara láta tengdaforeldra mína missa heimili sitt útaf sautján hundruð þúsund krónum."

Brynjólfur benti bankanum þá á samkomulag sem Valgerður Sverrisdóttir þáverandi viðskiptaráðherra hafði gert við allar helstu fjármálastofnanir landsins árið 2001. Samskonar samkomulag hafði verið gert árið 1998.

Í þriðju grein þess segir:

Sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert.

Þá segir ennfremur að fjármálafyrirtækjum sé skylt að greiðslumeta skuldara fari lánsupphæð yfir eina milljón króna.

Samkvæmt þessu þarf lántakandi að fara í greiðslumat áður en ábyrgðarmaður skrifar undir. Tryggt skal að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumatsins áður en hann gengst í ábyrgðina.

Slíkt var ekki gert í tilviki Brynjólfs og konu hans þegar þau tóku lánið. Eftir að bankanum hafði verið bent á þetta samkomulag losnaði tengdafaðir hans undan ábyrgðinni. Brynjólfi og unnustu hans var verulega létt og náðu svo að semja um skuldina.

„Það er hrikalegt að aðrir þurfi að taka á sig skuldir manns því maður vill sjálfur ganga frá sínum skuldum," segir Brynjólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×