Körfubolti

Jón Arnór og félagar unnu í tvíframlengdum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Stefán
Jón Arnór Stefánsson skoraði þrettán stig þegar að lið hans, CAI Zaragoza, hafði betur gegn Baloncesto Fuenlabrada í tvíframlengdum leik, 95-88, í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag.

Liðin skiptust á að vera í forystu síðustu mínúturnar í fjórða leikhluta en staðan var jöfn, 76-76, að honum loknum og þurfti því að framlengja leikinn.

Liðin skoruðu aðeins fjögur stig hvort í fyrri framlengingunni og þurfti því að framlengja á ný. Þá tóku gestirnir frá Zaragoza völdin í sínar hendur og kláruðu leikinn af öryggi.

Jón Arnór spilaði í tæpar 39 mínútur í leiknum og setti niður alls þrjár af fimm þriggja stig tilraunum. Hann tók þar að auki þrjú fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Zaragoza er í ellefta sæti deildarinnar með tíu stig en Barcelona og Real Madrid eru á toppnum með átján stig hvort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×