Erlent

Laus úr haldi en ákærur óbreyttar

Dominique Strauss-Kahn var brosmildur þegar hann yfirgaf dómhúsið í New York ásamt eiginkonu sinni, Anne Sinclair.
Dominique Strauss-Kahn var brosmildur þegar hann yfirgaf dómhúsið í New York ásamt eiginkonu sinni, Anne Sinclair. Mynd/AP
Dómari í New York ákvað í gær að Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fái að fara frjáls ferða sinna. Hann fær þó ekki að fara úr landi.

Strauss-Kahn hafði verið haldið í stofufangelsi í New York með ströngum skilyrðum síðan um miðjan maí, ákærður fyrir að hafa reynt að nauðga þernu á hótelherbergi í sömu borg þann 14. maí.

„Þetta er mikill léttir,“ sagði William Taylor, lögmaður Strauss-Kahns, og sagði þetta mál sýna hve auðvelt sé að ásaka fólk um alvarlega glæpi. „Það er svo mikilvægt í þessu landi að fólk, og þá sérstaklega fjölmiðlar, felli ekki dóm fyrr en allar staðreyndir liggja fyrir.“

Dómarinn sá ekki ástæðu til að fella niður ákærurnar á hendur Strauss-Kahn. Svo virðist sem saksóknarar í málinu telji ákærurnar þó ekki jafn skotheldar og í fyrstu var talið.

Við rannsókn málsins kom í ljós að þernan laug að einhverju leyti til um atburðarásina. Meðal annars reyndist ekki rétt að hún hafi strax látið yfirmann sinn vita um að Strauss-Kahn hefði reynt að nauðga henni, eins og hún þó fullyrti við lögreglu í fyrstu.

Þá reyndist hún hafa sagt ósatt um fortíð sína þegar hún sótti um hæli í Bandaríkjunum. Meðal annars hafði hún ekki skýrt rétt frá þegar hún sagði að sér hefði verið nauðgað í heimalandi sínu, Gíneu.

Ken Thompson, lögmaður þernunnar, svaraði allri gagnrýni á hana fullum hálsi. „Það er ljóst að konan gerði einhver mistök, en það þýðir ekki að hún sé ekki fórnarlamb nauðgunar,“ sagði Thompson.

Hann sagði hana hafa komið til Bandaríkjanna vegna þess að hún hafi orðið fyrir limlestingu kynfæra. Hún hafi haft áhyggjur af því að slíkt hið sama yrði gert við dóttur hennar, sem nú er fimmtán ára. Einnig fullyrti hann að henni hefði verið nauðgað af hermönnum, en ekki skýrt rétt frá því í hælisumsókn sinni.

Strax og fréttist bárust af því í gær að framburður þernunnar væri ekki jafn traustur og áður var talið, þá komu félagar Strauss-Kahns úr franskri pólitík honum strax til málsvarnar. Hann gæti enn tekið þátt í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningar á næsta ári, þótt hann yrði ekki sjálfur í framboði. Þá gæti hann átt möguleika á ráðherraembætti í ríkisstjórn Sósíalista.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×