Innlent

Minna rusl í kreppu

Mynd/Heiða Helgadóttir
Starfsmenn í urðunarstöðinni í Álfsnesi merkja greinilega breyttar neysluvenjur Íslendinga eftir hrun. Samanlögð þyngd alls þess sorps sem barst stöðinni í fyrra var rúmum 70 þúsund tonnum minni en þyngd þess sorps sem komið var með árið 2008.

Til samanburðar má geta þess að leyfilegur heildarafli á ýsu fyrir síðasta fiskveiðiár var 68.479 tonn eða rúmum fimmtán hundruð tonnum minna en samdrátturinn á magni sorps á tveimur árum. Samdrátturinn á þessum tveimur árum nemur rúmum 35 prósentum.

Bjarni Gnýr Hjarðar, yfirverkfræðingur þróunar- og tæknideildar Sorpu, segir að fljótlega eftir bankahrunið í október 2008 hafi Sorpumenn orðið varir við þetta breytta neyslumynstur. „Þegar góðærið var hvað mest tókum við á móti 450 tonnum á dag í Álfsnesi en nú eru þetta um 300 tonn á dag. Við urðum meira að segja að bregðast við þessum samdrætti með því að stytta vinnutímann um eina og hálfa klukkustund.“

Árið 2008 tók urðunarstöðin á móti tæplega 200 þúsund tonnum af sorpi. Gróft áætlað má segja að það samsvari tæplega 31 þúsund bílhlössum hjá venjulegum öskubíl. Á síðasta ári var einungis tekið á móti rúmum 128 þúsund tonnum eða tæplega 20 þúsund bílhlössum.

Sorpið frá góðærinu kemur sér reyndar nokkuð vel í Álfsnesi en þar er unnið úr því og hreinsað metangas. Framleiðslan er ekki langt frá milljón rúmmetrum á ári.

Fréttablaðið fór í heimsókn í urðunarstöðina í Álfsnesi og komst að því að vargfuglinn er ekki heimskari en svo að hann flýr um leið og hann sér bíl meindýraeyðisins nálgast. Þó liggja þúsundir fugla í valnum árlega.- jse / sjá síðu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×