Enski boltinn

Arsenal að "stela" öðrum Fabregas frá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas með nokkrum leikmönnum Barcelona.
Cesc Fabregas með nokkrum leikmönnum Barcelona. Mynd/Nordic Photos/Getty
Spænskir fjölmiðlar halda því fram að Arsenal sé á leiðinni að fá til sín efnilegan miðjumann frá Barcelona og segja þetta minna mikið á það þegar Arsenal-menn nældu í Cesc Fabregas á sínum tíma. Joan Toral er sextán ára miðjumaður sem hefur verið í unglingaliði Barcelona í mörg ár en hann vill nú fara frá spænsku meisturunum.

Joan Miguel Toral Harper á enska móður en hann hefur verið í unglingaliðum Barcelona frá því áður en hann komst á táningsaldurinn. Fabregas var einu ári yngri en hann þegar hann fór til Arsenal á sínum tíma.

Sandro Rosell, forseti Barcelona, er ekki alltof ánægður með þessar fréttir en það er ekki eins og Barcelona-menn viti ekki neitt um málið því umboðsmaður stráksins er Pere Guardiola, bróðir þjálfarans Pep Guardiola.

Chelsea, Manchester City og Liverpool hafa öll spurst fyrir um leikmanninn sem sér ekki mikla möguleika á því að komast að hjá hinu geysisterka liði Barcelona og vill því komast annað. Fabregas blómstraði undir stjórn Wenger og því ætti margt að mæla með því að Toral fari til Arsenal.

Ákveði leikmaðurinn að hætta hjá Barcelona og semja við annað félag þá á Barcelona bara rétt á lágmarksbótum sem eru um 300 þúsund evrur en það þykir ekki mikið í fótboltaheiminum í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×