Erlent

Rafbjörn frá steinöld reyndist nútímasmíði

Í ljós hefur komið að einn af helstu sýningargripunum á danska þjóðminjasafninu á alls ekki heima þar.

Um er að ræða litla styttu af birni úr rafi sem talin var frá steinöld eða yfir 6.000 ára gömul en hún hafði verið gefin til þjóðminjasafnsins árið 1997.  Stytta þessi varð landsþekkt árið 2007 þegar henni var stolið ásamt annari þjóðargersemi úr safninu dönsku gullhornunum.

Nú er komið í ljós að stytta þessi var smíðuð í kringum 1990 og er alls ekki steinaldargripur. Stjórn safnsins hefur því fjarlægt hana úr sýningarkassa í safninu.

Fjallað er um málið í Kristeligt Dagblad. Þar segir Peter Vang Petersen safnstjóri þjóðminjasafnsins að það sé aldrei gaman að því að vera blekktur. Það hafi hann verið.

Styttan hafi borist safninu í gömlum eldspýtnastokk og henni hafi fylgt handritaður miði frá árinu 1937.. Stokkurinn og miðinn hafi sannfært hann um að styttan væri ekta gripur frá steinöld.

Við nánari skoðun á styttunni í fyrra hafi hinsvegar komið í ljós spor eftir verkfæri sem ekki voru til fyrir 6.000 árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×