Fótbolti

Fabregas: Það er hægt að vinna Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cesc Fabregas verður væntanlega í aðalhlutverki á miðvikudagskvöldið þegar að Arsenal og Barcelona eigast við í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Þessi lið mættust einnig í keppninni í fyrra, þá í fjórðungsúrslitum og hafði Barcelona þá betur.

Fabregas var lengi vel orðaður við Barcelona og í sumar var greint frá því að hann hefði gengið á fund Arsene Wenger og farið fram á sölu.

Barcelona bauð í Fabregas en því var hafnað. Fabregas er enn hjá Arsenal og hann segir lykilatriði fyrir sína menn að bera ekki of mikla virðingu fyrir Börsungum.

„Við þurfum ekki að hafa of miklar áhyggjur af þeim. Við verðum bara að spila okkar leik og vera óttalausir," sagði Fabregas í viðtali við enska fjölmiðla.

„Við bárum of mikla virðingu fyrir þeim í fyrra, sérstaklega í fyrra," bætti hann við en liðin skildu jöfn, 2-2, í Lundúnum en Barcelona vann svo 4-1 sigur á heimavelli.

„Við vitum að Barcelona er með besta lið heims og að þetta verður erfitt fyrir okkur. En við erum með ungt lið og búum yfir miklum hæfileikum og krafti. Það er hægt að vinna Barcelona."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×