Innlent

Vigdís féllst á afsökunarbeiðni Marðar

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir

Vigdís Hauksdóttir, Framsóknarflokki, ætlar að fallast á opinbera afsökunarbeiðni Marðar Árnasonar, formanns umhverfisnefndar Alþingis, og sitja áfram í nefndinni.

Hún gekk af nefndarfundi í gærmorgun og sagði sig síðan úr nefndinni með opinberri yfirlýsingu: „Augljóst er að formaður nefndarinnar beitir mjög mismunandi vinnubrögðum eftir því hvort stjórnarþingmenn eða stjórnarandstöðuþingmenn eiga í hlut,“ segir þar.

Að sögn viðstaddra gekk það fram af fleiri nefndarmönnum að Mörður greip hvað eftir annað frammí fyrir henni með alls kyns athugasemdum þegar hún hafði orðið á fundi nefndarinnar.

Mörður Árnason

Við upphaf þingfundar í gær kvaddi Mörður sér síðan hljóðs og sagðist hafa sent Vigdísi tölvupóst þar sem hann bæði hana afsökunar á „harðneskjulegri fundarstjórn“. Mörður bað Vigdísi að endurskoða þá ákvörðun að segja sig úr nefndinni.

Vigdís sagði Fréttablaðinu að eftir að hafa rætt málið í þingflokki framsóknarmanna hefði hún komist að þeirri niðurstöðu að sitja áfram í nefndinni undir formennsku Marðar; sú þjónaði hagsmunum Framsóknarflokksins.- pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×