Fótbolti

Rangnick vill vinna United tvisvar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Ralf Rangnick, stjóri Schalke, sér ekkert því til fyrirstöðu að leggja Manchester United bæði heima og að heiman í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Þessi lið mætast í Þýskalandi annað kvöld og svo í Manchester í næstu viku. Sigurvegarinn í rimmunni kemst í úrslitaleikinn sem fer fram á Wembley-leikvanginum í Lundúnum. Andstæðingurinn þar verður annað hvort Real Madrid eða Barcelona.

Schalke hefur komið á óvart á keppninni en liðið slátraði hreinlega Evrópumeisturum Inter í fjórðungsúrslitunum. Liðinu hefur ekki gengið vel í deildinni í vetur og er Rangnick nýtekinn við því af Felix Magath sem var látinn fara.

„Ef við spilum eins og við gerðum tvívegis gegn Inter þá eigum við möguleika," sagði Rangnick við þýska fjölmiðla.

„Við stefnum ekki á að ná markalausu jafntefli. Við viljum vinna leikinn og við ætlum að spila eins og við gerðum gegn Inter á heimavelli."

„Það býst enginn við því að við vinnum 5-2 í þetta skiptið eins og við gerðum þá. En við ætlum að reyna að vinna báða leikina."

„Þetta voru ekki heppnissigrar. Við vorum betri bæði á heima- og útivelli. Ég veit ekki af hverju liðið vanmat okkur og stendur mér alveg á sama ef að United myndi gera það sama."

Rangnick hefur fylgst vel með United og hefur sjálfur séð marga leiki með liðinu. Hann var svo með útsendara á leik United gegn Everton um helgina.

„Það er hægt að koma auga á veikleika í öllum liðum heimsins. Höfum við áhyggjur af því að liðið hefur aðeins fengið þrjú mörk á sig í Evrópukeppninni þetta tímabilið? Það er tímabært að liðið fái á sig fleiri mörk."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×