Erlent

Uppreisnarmenn í Líbíu vilja selja fleirum olíu

Mynd/AP
Uppreisnarmenn í Líbíu vilja selja olíu til fleiri ríkja en Katar. Ennfremur krefjast þeir að Sameinuðu þjóðirnar aflétti banni á útflutningi á olíu frá landinu svo hægt verði að fjármagna neyðarhjálp til íbúa sem búa á svæðum uppreisnarmanna.

Olíuframleiðsla í Líbíu hefur nánast staðið í dag vegna átakanna í landinu. Fyrr í dag var greint frá því að olíuflutningaskip væri á leiðinni til borgarinnar Tobruk sem uppreisnarmenn hafa á sínu valdi, en þeir hafa gert samkomulag við yfirvöld í Katar um olíusölu. Nú vilja þeir gera samskonar samninga við fleiri ríki.

Gaddafi fær ekki að stjórna landinu

Talsvert hefur hallað á Moammar Gaddafi síðan Sameinuðu þjóðirnar samþykktu flugbann yfir Líbíu og loftárásir voru gerðar á flugher hans, skriðdreka og stórskotalið. Það er sjálfsagt ástæðan fyrir því að talsmaður stjórnarinnar sagði í dag að ríkisstjórn landsins væri til umræðu um breytta stjórnarhætti þar sem ríkt tillit yrði tekið til krafna uppreisnarmanna. Hann sagði þó algert skilyrði að Gaddafi yrði áfram í landinu og myndi leiða þessar breytingar.

Á þetta vilja hvorki uppreisnarmenn né vestrænar ríkisstjórnir fallast. Uppreisnarmenn taka einfaldlega ekki í mál að samþykkja stjórnarfarsbreytingar með þeim skilyrðum að Gaddafi fái áfram að stjórna landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×