Innlent

RÚV óheimilt að sýna beint frá tónleikunum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Frá tónleikunum í gær
Frá tónleikunum í gær Mynd: Valgarður
RÚV var ekki heimilt að vera með sjónvarpsútsendingu frá fyrstu tónleikunum sem haldnir voru í Hörpu, en þeir fóru fram í gær þegar Sinfóníuhljómsveitin steig á svið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV en mikil umræða hefur skapast um að RÚV sýndi beint frá íþróttaleik í gærkvöldi á sama tíma og þessir fyrstu tónleikar fóru fram í Hörpu.

Ekki er tekið fram í tilkynningunni hvaða ástæður eru fyrir því að RÚV var sjónvarpsútsending óheimil en fréttastofa hefur þegar óskað eftir nánari upplýsingum frá Hörpu.

Hins vegar var útvarpað beint á Rás 1 frá tónleikunum. Sinfóníuhljómsveitin lék undir stjórn Vladimírs Ashkenazí og flutti verkin Velkomin Harpa eftir Þorkel Sigurbjörnsson, píanókonsert eftir Edvard Grieg og Níundu sinfónía Beethovens.

„Hins vegar verða sömu tónleikar teknir upp í kvöld og verða á dagskrá sjónvarps með viðtölum sem Arndís Björk Ásgeirsdóttir tók við Vladimír Ashkenazí og Víking Heiðar Ólafsson á Hvítasunnudag, 12. júní nk. kl. 14.00. Þess má auk þess geta að formleg opnunarhátíð Hörpu fer fram kl. 18.00 föstudaginn 13. maí og verður útvarpað og sjónvarpað beint frá hátíðinni," segir í tilkynningu frá RÚV.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×