Innlent

Lægstu laun hækka strax um 20 þúsund

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Lægstu laun á almennun vinnumarkaði hækka strax í rúmar hundrað og áttatíu þúsund krónur ef nýjir kjarasamningar verða að veruleika. Vonast er til að hægt verði að ganga frá þeim á næsta sólarhringnum.

Það hefur verið fundað stíft í Karphúsinu í allan dag. Eftir margra mánaða samningaviðræður er útlit fyrir að samningar náist á næsta sólarhringnum. Svo virðist sem að samningsaðilar hafi náð saman um öll veigamestu atriðin og aðeins sé eftir að ganga frá tæknilegum atriðum.

Vilmundur Jósefsson formaður Samtaka atvinnulífsins segir lítið standa út af samningsborðinu. Verið sé að fara yfir ýmis lítil atriði og það taki tíma. Ef samningarnir verða að veruleika þá fær launafólk strax fimmtíu þúsund króna eingreiðslu.

Kjarasamningarnir sem nú eru á borðinu eru til þriggja ára og taka gildi í júní. Lægstu laun á almennum vinnumarkaði eru nú rúmar hundrað og sextíu þúsund krónur. Þau verða hins vegar um tvö hundruð og fjögur þúsund krónur að samningstíma loknum.

Vilmundur segir samninginn sem nú er á borðinu dýran en launakostnaðarhækkun fyrir atvinnulífið er í kringum 13% í heildina. Samningurinn er framhlaðinn sem þýðir að mestar hækkanir koma fram á fyrsta árinu. Lægstu dagvinnutekjur verða auk þess hækkaðar í hundrað og áttatíu þúsund strax ef samningarnir ganga eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×