Fótbolti

Pato með tvö í sigri Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
AC Milan vann í kvöld gríðarmikilvægan sigur á Inter í toppslag ítölsku úrvalsdeildarinnar. Brasilíumaðurinn Pato skoraði tvö mörk í 3-0 sigri.

Antonio Cassano bætti svo þriðja markinu við úr vítaspyrnu eftir að Javier Zanetti braut á honum sjálfum.

Milan er nú með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar en Napoli getur skotist upp í annað sæti deildarinnar með sigri á Lazio á morgun og minnkað þar með forystu Milan aftur í þrjú stig.

Cristian Chivu, leikmaður Inter, var rekinn af velli á 54. mínútu fyrir að brjóta á Pato en dómurinn þótti þó afar umdeildur.

Pato hafði komið AC Milan yfir strax á fyrstu mínútu leiksins. Robinho komst inn fyrir vörn Inter en Julio Cesar, markvörður liðsins, náði að verja frá honum. Pato fylgdi á eftir og náði að skora.

Átta mínútum eftir að hann „fiskaði“ Chivu af velli skoraði hann svo annað mark Milan með skalla eftir fyrirgjöf Ignazio Abate.

Milan fékk fleiri færi í leiknum en Cesar náði að verja vel í marki Inter. Þar til að Cassano fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×