Erlent

Nýjar upplýsingar um Önnu Frank birtar í bók

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Legsteinn til minningar um Önnu Frank og Margot systur hennar. Mynd/ afp.
Legsteinn til minningar um Önnu Frank og Margot systur hennar. Mynd/ afp.
Nokkur bréf eftir Önnu Frank og myndir af henni og fjölskyldu hennar, sem aldrei höfðu komið fyrir almenningssjónir, hafa nú verið birt. Bréfin og myndirnar þykja varpa nýju ljósi á líf Frank fjölskyldunnar í Amsterdam á meðan helförin stóð yfir.

Í bréfunum kemur meðal annars fram að það sem Anna Frank þráði mest var að fá að skauta aftur. Hún hafði nýlega fengið skauta áður en Nasistastjórnin í Hollandi ákvað að banna öllum gyðingum í landinu að láta sjá sig utandyra. Ofsóknir gegn gyðingum, þar á meðal Frank fjölskyldunni, voru hafnar í Hollandi.

„Ég vil gjarnan fara að skauta aftur, en við neyðumst víst til að sýna smá þolinmæði þar til stríðið er búið. Ef pabbi hefur efni á því, mun ég byrja í skautatímum aftur og ef ég stend mig vel mun pabbi leyfa mér að fara til Sviss, þannig að við getum heimsótt ykkur öll," skrifaði Anna Frank í einu bréfi til ömmu sinnar og afa og fleiri úr Frank fjölskyldunni, samkvæmt frásögn Sunday Times.

Bréfið var skrifað í marsmánuði árið 1941. Það er eitt af níu handskrifuðum bréfum frá Önnu, sem birtist í nýrri bók, „Treasures from the Attic: The Extraordinary Story of Anne Frank´s Family".

Auk bréfanna, sem eru skrifuð frá árunum 1940 til ársins 1942, þegar fjölskyldan leitaði skjóls á háalofti í Amsterdam, eru í bókinni fjöldi mynda, teikninga og bréfa sem Otto Frank, pabbi Önnu, fékk send eða sendi sjálfur frá sér. Ottó var sá eini úr fjölskyldunni sem lifði seinni heimstyrjöldina og útrýmingabúðirnar af. Það var hann sem ákvað að dagbók Önnu Frank skildi gefin út.

Anna Frank er eitt kunnasta fórnarlamb helfararinnar. Dagbók hennar er ein mest lesna bók í heimi og hefur efni hennar verið nýtt í gerð kvikmynda og leikrit verið skrifuð eftir henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×