Erlent

Stuðningsmenn Bradley Manning handteknir við Quantico

Um 30 mótmælendur voru handteknir við Quantico herstöðina í Virginíu í gærkvöldi. Fólkið var í hópi 400 manna sem komu saman við herstöðina til þess að krefjast þess að hinn 23 ára gamli Bradley Manning verði látinn laus úr haldi, en Manning er hermaðurinn sem lak þúsundum leyniskjala til Wikileaks eins og frægt er orðið.

Á meðal hinna handteknu var hinn 72 ára gamli Daniel Ellsberg, en sá öðlaðist frægð þegar hann lak Pentagon-skjölunum svokölluðu til blaðamanna í miðju Víetnam stríðinu. Þau skjöl eru sögð hafa haft mikil áhrif á að almenningur snérist gegn stríðinu í Víetnam á sínum tíma. Mótmælin fóru að mestu friðsamlega fram en þó sló í brýnu þegar lögreglumenn meinuðu fólkinu að leggja blómsveig að minnismerki hermannannna sem reistu bandaríska fánann á japönsku eyjunni Iwo Jima í Seinni Heimstyrjöldinni.

Manning er sakaður um að hafa lekið þúsundum leyniskjala, þar á meðal voru skeyti sem gengu á milli utanríkisráðuneytisins og flestra sendiráða Bandaríkjanna í heiminum. Þá er hann sakaður um að hafa lekið myndbandi sem sýndi árás bandarískrar herþyrlu í Írak þar sem óbreyttir borgarar féllu og börn slösuðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×