Erlent

Árás gerð á höfuðstöðvar Gaddafís

Flugskeytaárás var í nótt gerð á höfuðstöðvar Gaddafís í Trípólí. Árásin var gerð á víggirta byggingu í úthverfi höfuðborgar Líbíu, Trípólí og segja talsmenn bandamanna að ætlunin hafi verið að eyðileggja aðgerðamiðstöð Líbíska herliðsins.

Gaddafí er sjálfur sagður búa í byggingunni en engar fregnir hafa borist af því að nokkur hafi fallið í árásinni og alls óvíst hvort hann hafi verið á staðnum þegar árásin var gerð. Flugskeytin sprungu á sama tíma og yfirmaður Bandaríkjahers, Mike Mullen, staðhæfði við fréttamenn að ekki stæði til að gera beinar árásir á Gaddafí sjálfan. Möguleiki er þó á því að árásin hafi verið gerð af Bretum eða Frökkum.

Í nótt loguðu eldar á nokkrum stöðum í Trípólí og látlaust var skotið af loftvarnarbyssum, sem koma þó að litlum notum gegn flugskeytum og sprengjuflugvélum sem fljúga í þúsunda feta hæð. Líbíumenn lýstu yfir vopnahléi á nýjan leik í gær en talsmenn bandamanna og uppreisnarmenn segja ekkert að marka slíkar yfirlýsingar enda hafi menn Gaddafis gert stórskotaliðsárásir á borgina Misrata stuttu eftir yfirlýsinguna í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×