Innlent

Stefán Einar: Hafa engan rétt til þess að halda launafólki í gíslingu

Stefán Einar Stefánsson.
Stefán Einar Stefánsson.
Stefán Einar Stefánsson tók formlega við embætti formanns VR á aðalfundi félagsins sem fram fer nú í kvöld. Í ræðu sinni gerði hann kjarasamningaviðræður síðustu vikna að umtalsefni og gagnrýndi Samtök atvinnulífsins harðlega og það hvernig þau hafa blandað fiskveiðistjórnunarmálum inn í samningaviðræðurnar. „Þar hafa forsvarsmenn samtakanna gengið alltof langt og alltof lengi í því að beita fyrir sig kjarasamningum á vinnumarkaði, í þeirri viðleitni sinni að hafa sitt fram. Þeir sem þar ráða för hafa engan siðferðislegan eða lagalegan rétt til þess að halda launafólki í landinu í gíslingu vegna þessa máls,“ sagði Stefán Einar.

Hann sagði að allt frá hruni hafi almenningur í landinu sýnt „ótrúlegt þolgæði, yfirvegun og vilja til þess að gera gott úr því sem að höndum hefur borið.“ Launamenn hafi tekið á sig ýmsar birgðar, atvinna hafi minnkað og laun lækkað. „Allt hefur þetta verið framlag okkar launamanna til þess að halda fyrirtækjunum og hjólum efnahagslífsins gangandi.“

Stefán sagði að launafólk geti hinsvegar ekki dregið þann vagn eitt og sér. Nú sé hinsvegar svo komið að SA hafi í raun gefið það út að þau ætlist til að launafólk „haldi púlinu áfram en að þau geti haldið að sér höndum þar til öllum þeirra kröfum hefur verið fullnægt gagnvart hinu opinbera. Við það verður ekki unað.“

Ræðu Stefáns Einars má sjá í heild hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×