Innlent

SA vill reyna til þrautar með þriggja ára samninga

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Formaður Samtaka Atvinnulífsins óttast ekki verkföll á almennum vinnumarkaði. Reynt verði til þrautar að koma á þriggja ára samningum áður en skammtímasamningar verði skoðaðir.

Vilmundur Jósefsson formaður SA segir þriggja ára samninga vera mjög dýra fyrir fyrirtækin. SA þurfi að sjá að fyrirtækin hafi möguleika á að greiða launahækkanir. Þar af leiðandi þurfi að koma atvinnumálunum af stað, samgöngumál, orkumál og sjávarútvegsmál eru þar efst á baugi.

„Það er náttúrulega alveg ótrúlegt í rauninni að hlusta á fólk vera að tala stöðugt um að LÍÚ sé með okkur í gíslingu, við séum með samningana í gíslingu en við erum í rauninni bara að benda á að sjávarútvegur er stærsti atvinnuvegurinn og við viljum að hann hafi möguleika til þess að hjálpa okkur við að koma samningunum í gegn."

Hann segir samtökin muni reyna það til þrautar að ná þriggja ára samningnum. „Ég tel að við höfum reyndar örfáa daga til viðbótar og við verðum bara að skoða það mál á meðan, ég trúi því ekki að ríkisstjórnin vilji fá illsku á vinnumarkaðinn," segir hann að lokum og bætir við að best sé að bíða með að spá fyrir um verkföll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×