Innlent

150 þúsund króna sekt fyrir að keyra á 157 í Ártúnsbrekku

Sautján ára piltur var staðinn að hraðakstri í Ártúnsbrekku í gærkvöld en bíll hans mældist þar á 157 km hraða. Kauði á nú yfir höfði sér sekt upp á 150 þúsund krónur auk þess sem hann missir bílprófið í þrjá mánuði.

Þá fær hann þrjá refsipunkta í ökuferilsskrá sína. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ekki virðist vera vanþörf á því að strákurinn hvíli skírteinið, því þrátt fyrir ungan aldur hefur hann áður verið tekinn fyrir hraðakstur.

Ungur aldur ökumannsins gerir það einnig að verkum að hann verður einnig settur í ótímabundið akstursbann að því er frem kemur í tilkynningu frá Umferðarstofu. „Ökuskírteinið fær hann ekki aftur fyrr en hann hefur sótt sérstakt námskeið og tekið ökuprófið að nýju. Slíkt námskeið er ætlað nýliðum í umferðinni sem með alvarlegri hegðun hafa sýnt fram á að þeir standast ekki það próf að vera úti í umferðinni. Á námskeiðinu fá þeir enn frekari leiðsögn um þá ábyrgð sem fylgir því að stjórna ökutæki og hvaða afleiðingar áhættuhegðun getur haft í för með sér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×