Innlent

Bílastæðagjöld við Leifsstöð hækka um 50%

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir hækkunina ósvífna.
Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir hækkunina ósvífna. Mynd: GVA
Bílastæðagjöld við Leifsstöð hækkuðu um tæp fimmtíu prósent 15.apríl síðastliðinn. Framkvæmdastjóri FÍB segir þetta ósvífna hækkun hjá fyrirtæki í einokunarstöðu einmitt þegar vertíð ferðalaga til útlanda er að hefjast

Þetta kemur fram á fréttavef FÍB. Þar segir að gjald fyrir 10 daga afnota af langtímabílastæði við Leifsstöð sé nú 7.400 krónur en var áður rúmar fimm þúsund krónur. Gjaldið hafi því verið hækkað um tæplega 50% á einu bretti.

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir hækkunina ósvífna.

„Þetta gerðist án þess að nokkur tilkynning væri send út eða reynt að skýra hvers vegna menn eru að hækka gjöldin um þessar stóru upphæðir, og þetta er auðvitað mjög ámælisvert og við teljum að stjórnvöld muni skoða þetta sérstaklega í ljósi þess að þarna er um að ræða bílastæði sem eru í boði, þeir hafa þarna einokunarstöðu þar sem það eru engin önnur bílastæði í boði við flugstöð Leifs Eiríkssonar,“ segir hann.

Þá segir hann tímasetninguna ekki síður slæma.

„Menn virðast sæta lagi núna þegar ferðamannavertíðin er að hefjast og koma inn með þessar miklu hækkanir, þvert á þá þróun sem menn vilja vera að sjá á verðlagi hér innanlands þá er þetta mjög alvarlegt að gera þetta með þessum hætti,“ segir Runólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×