Fótbolti

Platini vill færa Meistaradeildina til að geta spilað HM í Katar um vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini.
Michel Platini. Mynd/Nordic Photos/Getty
Michel Platini, forseti UEFA, er til í að gera sitt til þess að Heimsmeistarakeppnin í Katar árið 2022 verði spiluð um vetur í staðinn fyrir í sjóðandi eyðurmerkurhita í júní. Til þess þarf að færa til keppnistímabilið í Evrópu og Platini sættir sig við það.

„Ef keppnin í Katar fer fram um vetur þá mun vera auðvelt fyrir Katar að undirbúa keppnina. Hvernig getur fólk annars verið í 50 stiga hita í Katar í júní? Það er ekki gott mál ef fólk getur ekki notið þess að horfa á HM," sagði Michel Platini.

„Fólk myndi koma til Katar í tvær til þrjár vikur og gæti aldrei farið út fyrir hótelherbergið því það er kannski 60 stiga hiti úti. Það er minna mál fyrir leikmennina sem eru hvort sem er á hótelum og á stöðum þar sem hitanum er stjórnað," sagði Platini.

Platini viðurkenndi að hafa gefið Katar atkvæði sitt og sagði að HM væri mikilvægasta fótboltakeppnin í heim og þess vegna væri rétt að færa Evrópudeildir og Meistaradeildina til þess að geta spilað HM í Katar við ásættanlegar aðstæður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×