Innlent

Skólarnir fá 200 milljónir

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Borgarstjóri lagði á fundi borgarráðs í gær fram tillögu Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að auka fjárheimildir menntasviðs á haustönn 2011 um 200 milljónir króna.

Tillagan var samþykkt og vísað til borgarstjórnar. Í tillögunni er lagt til að 135 milljónum króna verði bætt við úthlutað kennslumagn, 20 milljónum verði bætt við vegna gæslu nemenda í frímínútum og í matartíma og 45 milljónum verði bætt við úthlutað fjármagn til forfallakennslu nemenda. Útgjöldunum á að hluta að mæta með hækkun útsvars í 14,48 prósent, frá og með 1. júlí næstkomandi. Gert er ráð fyrir að hækkunin skili borginni 115 milljónum króna í auknar tekjur.

Forsvarsmenn grunnskóla kynntu í janúar fyrirhugaðan niður­­­skurð hjá menntaráði og hafa skólastjórnendur í þessum mánuði unnið að nánari útfærslu niður­skurðarins, en úr honum verður væntanlega dregið í samræmi við auknar fjárheimildir.

„Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 var sá fyrirvari gerður á fjárhagsáætlun Menntasviðs að horft yrði til viðræðna sveitar­félaganna og menntamálaráðherra vegna tímabundinna breytinga á grunnskólalögum til að gera sveitarfélögum betur kleift að standa vörð um gæði kennslunnar. Ekki er útlit fyrir að sú niðurstaða náist. Strax í byrjun árs voru rekstrar­áætlanir skóla grannskoðaðar og í ljós kom að uppsafnaður vandi vegna hagræðingar síðastliðinna ára, sérstaklega í gæslu og forföllum, var ekki ásættanlegur,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Félög foreldra grunnskólabarna í borginni hafa mótmælt fyrirhuguðum niðurskurði harðlega síðustu daga og vikur. Í gær var boðað til sérstaks samstöðufundar og mótmæla við Ráðhús Reykjavíkur, en mótmælunum lauk með opnum fundi með Jóni Gnarr borgarstjóra og Oddnýju Sturludóttur, formanni menntaráðs borgarinnar.

Fulltrúar foreldra hafa gagnrýnt að ekki liggi fyrir með hvaða hætti eigi að hagræða í skóla og frístundastarfi barna í Reykjavík og benda á að skólastjórnendur hafi engar upplýsingar fengið um hvað aukin fjárveiting þýði í raun.

Töluverður hiti hefur verið í mótmælum foreldra. Þannig hefur Guðrún Valdimarsdóttir, formaður SAMFOK, sagt erfitt að skylmast um tölur við fræðslustjóra eða aðra fulltrúa borgarinnar þegar þeir velji að ræða við foreldra „í þoku blekkingar og leyndarhjúps“.

Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri hefur hins vegar sagt að misskilnings hafi gætt í tölum sem slegið hafi verið fram um 800 milljóna króna niðurskurð í rekstri grunnskólanna. Hann bendir á að í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir þetta ár hafi verið gert ráð fyrir 290 milljóna króna niðurskurði í grunnskólunum. Með aukinni fjárveitingu standi nú eftir 92 milljóna króna niðurskurður sem skólastjórnendur fáist við með hagræðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×