Innlent

Marel gerir samstarfssamning við Víkina

Marel er einn af máttarstólpum Víkurinnar - Sjóminjasafnsins í Reykjavík næstu þrjú árin en félögin gerðu nýverið með sér þriggja ára samstarfssamning.

Samningurinn felur í sér 10.000 evru, eða tæplega 1,6 milljón kr. framlag frá Marel sem skiptist niður í þrjár árlegar greiðslur yfir samningstímann.

Í tilkynningu segir að markmið Marel með samningnum er að gera þróun á nútíma fiskvinnslutækni sýnilegri fyrir gesti safnsins.

„Sjávarútvegur hefur um langt skeið verið undirstaða velmegunar á Íslandi. Sjóminjasafnið í Reykjavík heldur utan um sögu og þróun sjávarútvegs á Íslandi í gegnum aldirnar og sér um að kynna þær komandi kynslóðum hér á landi, sem og erlendum gestum," segir í tilkynningunni.

„Í meira en aldarfjórðung, allt frá því að fyrsta rafeindavog fyrirtækisins var kynnt til sögunnar árið 1979, hefur Marel lagt sitt af mörkum til að auka hagkvæmni og framleiðni í vinnslu á fiski. Í dag er Marel í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja landsins og í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×