Fótbolti

Mögulegir mótherjar KR og FH - dregið á eftir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
KR-ingar eru í góðum málum fyrir síðari leikinn í Slóvakíu.
KR-ingar eru í góðum málum fyrir síðari leikinn í Slóvakíu. Mynd/Stefán
KR-ingar og FH-ingar geta grætt á því að hafa dregist gegn sterkum mótherjum í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar í knattspyrnu. C.D. Nacional og MSK Zilina eru metin það sterk af UEFA að slái íslensku liðin þau úr keppni eru þau í efri styrkleikaflokki í keppninni. Dregið verður í keppninni á eftir.

Öll félagslið í keppnum á vegum UEFA eru metin samkvæmt stigakerfi. Heildarstig liðanna sem mætast ráða því í hvorn styrkleikaflokkinn sigurliðið fer fyrir dráttinn í næstu umferð.

Takist KR að leggja Zilina að velli bíður þeirra eitt eftirtaldra liða:

AC Omonia frá Kýpur, KS Vllaznia frá Albaníu/FC Thun frá Sviss, FC Shakhter Karagandy frá Kasakstan/St. Patrick's FC frá Írlandi, Llanelli AFC frá Wales/FC Dinamo Tbilisi, FC Iskra-Stal frá Makedóníu/NK Varazdin frá Króatíu.

FH-ingar geta dregist gegn eftirtöldum liðum takist Hafnfirðingum að slá Nacional út:

WKS Slask Wrocklaw frá Póllandi/Dunee United frá Skotlandi, Vålarenga frá Noregi/FC Mika frá Armeníu, SV Ried frá Austurríki, BK Häcken frá Svíþjóð/FC Honka Espoo frá Finnlandi, NK Domzale frá Slóveníu/RNK Split frá Króatíu.

Tekið skal fram að bæði FH og KR eiga erfitt verkefni fyrir höndum í síðari leiknum og mikið verk óklárað.

Einnig verður dregið í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem í ljós kemur hverjir mótherjar sigurvegararnir úr viðureign Rosenborgar og Breiðabliks mæta. Rosenborg vann fyrri leikinn 5-0.

Drátturinn verður í beinni útsendingu á heimasíðu UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×