Innlent

Sakar löggu um að ljúga upp á sig kynferðisbroti

Málið kom upp í september 2009 eftir skemmtun lögreglumanna á Suðurnesjum.
Málið kom upp í september 2009 eftir skemmtun lögreglumanna á Suðurnesjum. Mynd/GVA
Fyrrverandi lögreglumaður hefur kært lögreglufulltrúa á Suðurnesjum fyrir rangar sakargiftir í kynferðisbrotamáli. Maðurinn var sýknaður héraðsdómi. Greint er frá þessu í Fréttatímanum í dag.

Málið kom upp fyrir tveimur árum eftir skemmtun lögreglumanna á Suðurnesjum. Lögreglumaðurinn fyrrverandi fór heim til sín ásamt eiginkonu lögreglufulltrúans sem síðar mætti á staðinn þar sem eiginkonan og lögreglumaðurinn voru fáklædd. Í framhaldinu kom til stympinga milli mannanna. Síðar um nóttina greindi lögreglufulltrúinn frá því að eiginkona sín hefði líklega verið misnotuð kynferðislega. Skömmu síðar var lögreglumaðurinn fyrrverandi handtekinn og færður í fangageymslu.

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði manninn þar sem frásagnir lögreglufulltrúans og eiginkonunnar þóttu ekki trúverðugar. Eiginkona bar við minnisleysi og var framburður hennar á reiki. Þá var lögreglufulltrúinn margsaga um atburðarásina.

Lögreglumaðurinn fyrrverandi hefur sem fyrr segir nú kært lögreglufulltrúann og segir hann hafa logið upp á sig glæp. Einnig lagði hann fram kæru gegn lögreglumönnunum sem rannsökuðu málið fyrir óviðunandi vinnubrögð.

Fram kemur í Fréttatímanum að ríkissaksóknari hafi vísað frá máli lögreglumannanna sem rannsökuðu ásakirnar, en þeim hluta málsins sem sneri að lögreglufulltrúanum og eiginkonunni var vísað til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðin sem lét málið niður falla. Lögreglumaðurinn fékk mánaðarfrest til að kæra þá ákvörðun til ríkissaksóknara og það hefur hann nú gert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×