Erlent

Reyndi að kljúfa atóm í eldhúsinu

Maðurinn vildi sjá hvort það væri hægt að kljúfa atóm heima við en var handtekinn.
Maðurinn vildi sjá hvort það væri hægt að kljúfa atóm heima við en var handtekinn. Nordicphotos/afp
Rúmlega þrítugur Svíi, Richard Handl, getur átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi eftir að hann var handtekinn í síðasta mánuði fyrir að reyna að kljúfa atóm í eldhúsinu sínu.

Handl sagði lögreglunni að iðjan væri einungis tómstundagaman. Í samtali við AP-fréttastofuna segir hann að í íbúð hans í Suður-Svíþjóð hafi verið geislavirku efnin radíum, ameríkín og úraníum þegar lögreglan birtist og handtók hann fyrir að hafa þau undir höndum. Slíkt er ólöglegt. Handl segir að hann hafi reynt að útbúa kjarnakljúf heima hjá sér mánuðum saman og hélt úti bloggi um tilraunir sínar, þar sem hann lýsti því meðal annars hvernig hann hefði búið til lítið kjarnorkuslys á eldavélinni sinni.

Það var ekki fyrr en síðar að Handl áttaði sig á því að tómstundagaman hans gæti hugsanlega verið ólöglegt. Því sendi hann fyrirspurn til sænskra geislavarnaryfirvalda, sem svöruðu með því að gera lögreglunni viðvart.

„Ég hef alltaf haft áhuga á eðlis- og efnafræði,“ segir Handl og bætir við að hann hafi einungis viljað komast að því hvort hægt væri að kljúfa atóm heima við.

Mælingar sýndu þó fram á að geislavirkni í íbúð Handls var undir hættumörkum.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×