Innlent

Húsavíkurflug hefst á ný eftir langt hlé

Húsavíkurflugvöllur.
Húsavíkurflugvöllur. Mynd/Vilhelm
Flugfélagið Ernir hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Húsavíkur næsta vor. Þrettán ár eru liðin frá því Flugfélag Íslands hætti Húsavíkurflugi en síðan hélt Mýflug uppi áætlunarflugi þangað um tveggja ára skeið en hætti árið 2000.

Forsvarsmenn Ernis segja að mikil tækifæri felist í flugi til Húsavíkur bæði hvað varðar heimafólk og innlenda sem erlenda ferðamenn. Þeir hyggjast búa til dagsferðapakka í tengslum við flugið þar sem ferðamenn geta farið í hvalaskoðun á Húsavík eða útsýnisferð um Mývatnssveit og svæði Norðausturlands.

Þá er líklegt að iðnaðaruppbygging á Bakka samhliða virkjanaframkvæmdum í Þingeyjarsýslum, sem nú er í undirbúningi, kalli á mikla farþegaflutninga, eins og gerðist á Austurlandi í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði.



Áætlunarflugið til Aðaldalsflugvallar hefst þann 12. apríl 2012. Boðið verður upp á flug tvisvar á dag, þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga, og eitt flug verður á sunnudögum. Sala á flugmiðum er þegar hafin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×