Innlent

Uppsagnir í Arion Banka

57 starfsmönnum Arion Banka var sagt upp störfum í dag. Bankastjórinn segir aðgerðirnar eiga sér langan aðdraganda en núna hafi verið rétti tíminn til að lækka kostnað í bankanum þar sem vinna við úrlausnir og endurskipulagningu hafa dregist saman.

Dagurinn í dag var erfiður fyrir starfsfólk í höfuðstöðvum Arion Banka en 38 fengu afhent uppsagnarbréf í morgun auk 19 á öðrum starfsstöðvum bankans. Starfsmennirnir störfuðu á öllum sviðum bankans en flestir voru á rekstrarsviði og viðskiptabankasviði.

„Þetta hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Við höfum verið að vinna í að endurskipuleggja bankann um nokkurt missera skeið. Það er í raun og veru ár síðan að við komumst að því að það þyrfti að fækka starfsfólki í grunnstarfsemi bankans um sirka hundrað mann," segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion Banka.

Hann segir að á undanförnu ári hafi starfsfólki fækkað um 30 og nú hafi þeir því miður þurft að grípa til þess úrræðis að segja fólki upp. Þá hefur mikil vinna undanfarið farið í úrlausnarverkefni fyrirtækja og einstaklinga.

Höskuldur segir þá vinnu einfaldlega vera að dragast saman. Það sé kominn tími til að endurskipuleggja bankann og laga skipulagið meira að framtíðarþörfum.

Hagnaður Arion Banka fyrstu sex mánuði ársins voru 10,2 milljarðar króna en Höskuldur segir hagnaðinn aðallega vera vegna einskiptis uppfærslu á eignum en grunnrekstur sé ekki að skila því sem skyldi.

„Við höfum möguleikann að bíða og sjá. Okkur finnst það ekki vera möguleiki. Við þurfum að taka á málunum eins og þau horfa við okkur. Kostnaðurinn í bankanum er of hár, það er að verða þessi breyting í viðfangsefnum bankans og okkur finnst núna rétti tíminn," segir Höskuldur.

Höskuldur telur rekstur íslenska fjármálakerfisins of kostnaðarsaman en það sé að hluta til vegna þessa stóru verkefna sem unnið hefur verið að. Bankinn hafi lokið þeim verkefnum að miklu leyti á undan öðrum fjármálastofnunum.

„Eins og við horfum á þetta núna þá teljum við að við séum komin á þann stað sem að við viljum vera. Nú er bara að fara áfram með bankann eins og að hefur verið stefnt," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×