Innlent

Vísar á bug gagnrýni á samskipti við Evrópuríki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar segir engan hafa rækt samskipti við Evrópu eins vel og hann.
Ólafur Ragnar segir engan hafa rækt samskipti við Evrópu eins vel og hann.
Það hefur enginn forseti kappkostað jafn ríkulega og ég að stunda góð samskipti við Evrópuþjóðir og Bandaríkin, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í Reykjavík síðdegis á Bylgunni í dag.

„Ég hef farið embættiserindum til tuttugu Evrópulanda – farið til Bandaríkjanna oftar en nokkur forseti – átt samskipti við forseta Bandaríkjanna og þingmenn í öldungadeildinni,‟ sagði Ólafur Ragnar Grímsson. Hann segist því ekki sitja undir ámælum um að hafa Evrópuþjóðum fjandskap. Hann benti á að hann myndi heimsækja fimm lönd i haust í Evrópu í opinberum erindagjörðum.

„Það sem greinilega fór í taugarnar á þessum vinum Evrópusambandsins var það að ég leyfði mér að nefna sögulegar staðreyndir varðandi samskpti Íslands og þessara landa frá haustinu 2008 og 2010,‟ sagði Ólafur Ragnar. Það væri ekki síður mistök að gleyma þessu tímabili í Íslandssögunni þegar öll önnur ríki ýttu Íslandi út í kuldann heldur en að gleyma aðdraganda bankahrunsins.

Hann sagði að Færeyingar og Pólverjar hefðu vissulega stutt Íslendinga en sá stuðningur hefði ekki orðið virkur fyrr en þessu umsátri sem Bretar og Hollendingar bjuggu til með stuðningi Evrópusambandsins í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×