Innlent

Svandís vildi frávísun í fyrra - segist nú hafa þurft dómsniðurstöðu

Fullyrðingar umhverfisráðherra um að hún hafi talið nauðsynlegt í dómsmálinu gegn Flóahreppi að fá skorið úr lagaóvissu virðast í mótsögn við tilraun hennar í fyrra til að fá málinu vísað frá dómi og koma þannig í veg fyrir dómsniðurstöðu. Þá hafði ákvörðun hennar um áfrýjun til Hæstaréttar enga efnislega þýðingu því lögin umdeildu voru í millitíðinni numin úr gildi.

Svandís Svavarsdóttir hefur í vörn sinni vegna tapaðra málaferla gegn Flóahreppi haldið því fram að nauðsynlegt hafi verið að áfrýja til Hæstaréttar til að fá skorið úr um lagaóvissu þar sem leiðsögn héraðsdóms hafi ekki verið nægilega skýr.

Spyrja má hvort umhverfisráðherra sé þarna kominn í mótsögn við sjálfan sig því í fyrravor reyndi Svandís að fá málinu vísað frá dómi þegar Flóahreppur taldi nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort lagatúlkun hennar stæðist.

Þá hefur Svandís verið gagnrýnd fyrir að vísa málinu til Hæstaréttar, eftir að hún tapaði því fyrir héraðsdómi í haust, þar sem Alþingi breytti lögunum umdeildu aðeins tæpri viku eftir að héraðsdómur féll, og bætti inn heimild til sveitarfélaga til að innheimta kostnað vegna skipulagsvinnu. Bent hefur verið á að áfrýjun til Hæstaréttar hafi því ekki haft aðra þýðingu en að túlka lög sem voru fallin úr gildi, auk þess að tefja staðfestingu aðalskipulags hreppsins.

Ennfremur hefur Svandís verið gagnrýnd fyrir að blanda umhverfismálum inn í deiluna þar sem niðurstaða umhverfismats Urriðafossvirkjunar fékkst fyrir sjö árum, með staðfestingu Skipulagsstofnunar og þáverandi umhverfisráðherra. Þá benti þingmaður Framsóknarflokks, Sigurður Ingi Jóhannsson, á það á Alþingi í gær að ekki var tekist á um umhverfismál í dómsmálinu.

"Dómur héraðsdóms og Hæstaréttar snerist um að ráðherra hefði ekki farið að lögum, - hefði ekkert með umhverfismál að gera. Ráðherra braut á stjórnskipulegum rétti sveitarfélaga til að fara með skipulagsmál," sagði þingmaðurinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×