Marco Pezzaiuoli, þjálfari Hoffenheim, telur að 2-2 jafntefli við St. Pauli í þýsku deildinni hafi verið sanngjörn. Gylfi Þór Sigurðsson lék síðustu tuttugu mínútur leiksins og náði David Alaba að jafna leikinn fyrir Hoffenheim á 90. mínútu.
„Jafntefli voru sanngjörn úrslit því við sáum tvo gjörólíka hálfleika," sagði Pezzaiuoli við þýska blaðið Kicker. „Við áttum skilið að ná forystunni. Í síðari hálfleik vorum við langt frá því að leika líkt og í þeim fyrri."
Max Kruse og Gerald Asamoah skoruðu mörk St. Pauli eftir að Marvin Compper hafði komið Hoffenheim yfir í leiknum. Hoffenheim er í 8. sæti með 26 stig.

