Fótbolti

Ferguson: Nani verður með Manchester United á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nani er mikilvægur fyrir Manchester United.
Nani er mikilvægur fyrir Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nani og Michael Carrick verða báðir í hópnum hjá Manchester United fyrir leikinn á móti Marseille í Meistaradeildinni á morgun og kemur það mörgum mikið á óvart að Nani sé búinn að ná sér eftir að hafa fengið stóran skurð á fótinn eftir ljóta tæklingu frá Liverpool-manninum Jamie Carragher.

Það var búist við að Nani myndi missa af mörgum leikjum og kæmi líklega ekki aftur fyrr en í apríl en Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sagði frá því á blaðamannafundi í kvöld að Nani myndi spila í leiknum.

„Nani og Michael Carrick æfðu báðir á sunnudag og mánudag og þeir munu taka þátt í leiknum á morgun," sagði Sir Alex Ferguson. Michael Carrick hefur verið að glíma við nárameiðsli.

Ferguson gladdist líka yfir því að Antonio Valencia sé búinn að ná sér af sínum meiðslum og þá eru meiðsli fyrirliðans Nemanja Vidic frá því um helgina ekki talin vera alvarleg. Þetta lítur því mun betur út hjá United en fyrir nokkrum dögum.

Manchester United og Marseille gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Frakklandi en United hefur aldrei tapað fyrir frönsku liði á Old Trafford og getur komist fimmta árið í röð í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þeir eru með reynslumikið og með öflugt lið. Þetta verður erfiður leikur en frábært andrúmsloft á Old Trafford mun hjálpa okkur eins og alltaf," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×