Innlent

Vannærð börn í Sómalíu

Börn í Sómalíu
Börn í Sómalíu Mynd úr safni
Alþjóða Rauði krossinn segir að hvergi í heiminum sé vannæring barna jafn mikil og í Sómalíu, en þar hefur ástandið hríðversnað á undanförnum vikum. Fjöldi barna sem þjást af alvarlegri vannæringu hefur tvöfaldast síðan í mars í sumum hlutum Sómalíu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.

„Rauði kross Íslands hefur opnað söfnunarsímann 904-1500 vegna hungursneyðarinnar í austanverðri Afríku. Þá hefur félagið varið rúmlega fjórum milljónum króna til kaupa á næringarríkum matvælum fyrir börn.

Alþjóða Rauði krossinn segir að jafnvel í þeim héruðum Sómalíu þar sem aðstæður til landbúnaðar eru góðar þjáist 11% af börnum undir fimm ára aldri af alvarlegri vannæringu. Tölurnar sýni að fólk sé að kikkna undan samanlögðum áhrifum þurrka og langvarandi styrjaldarástands. Hirðingjar og bændur sem reiða sig á reglubundnar rigningar eru í verstri stöðu. ," segir í tilkynningunni.

Mat Rauða krossins á aðstæðum byggist á næringafræðilegum upplýsingum frá 39 heilsugæslustöðvum og 18 matardreifinarstöðvum sómalska Rauða hálfmánans.

„Síðan í október í fyrra hefur Alþjóða Rauði krossinn dreift neyðargögnum til hálfrar milljónar manna í Sómalíu. Verið er að efla dreifinguna enn frekar með því að koma upp tíu nýjum matardreifingarstöðvum og senda hreyfanleg teymi á aðra staði.

Áhersla er lögð á að gefa börnum undir fimm ára aldri næringarríkan mat, sem og konum sem eru annað hvort þungaðar eða með börn á brjósti.

Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn er ein af fáum hjálparstofnunum með starfsemi um alla Sómalíu,“ segir ennfremur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×