Innlent

Jussanam vill fá sama stuðning og Marie Amelie

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jussanam Da Silva vildi gjarnan fá sama stuðning og Marie Amelie.
Jussanam Da Silva vildi gjarnan fá sama stuðning og Marie Amelie.
„Þetta er svolítið skrýtið af því að þessi kona hefur engin tengsl við Ísland. Hún er ekki hérna og vill ekki vera hérna," segir Jussanam da Silva, brasilísk kona sem hefur dvalið hér um skeið. Jussanam starfaði í tvö ár í Hlíðarskóla en vinnuveitandi hennar þurfti að segja henni upp störfum þar sem hún fékk ekki áframhaldandi atvinnu- og dvalarleyfi. Ástæðan fyrir því var sú að hún skildi við íslenskan eiginmann sinn. Hún á sér hins vegar þá ósk heitasta að búa hér til frambúðar.

Jussanam furðar sig á því að tveir þingmenn hafi ákveðið að taka málstað rússneska rithöfundarins Madina Salamova og leggi til að henni verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Salamova, sem þekkt er undir nafninu Marie Amelie, hefur búið í Noregi frá unga aldri en var í síðustu viku gert að yfirgefa landið og er nú komin til Rússlands. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um að hún verði gerð að íslenskum ríkisborgara.

Jussanam bendir á að sjálf hafi hún verið löglegur innflytjandi hér á landi. Hún hafi góð tengsl við Ísland, elski landið og vilji vera hér. „Það er starf í Hlíðaskóla sem bíður eftir mér og fjölmargir Íslendingar styðja mig," segir Jussanam. Það sé því skrýtið að þingmennirnir vilji berjast fyrir rússneska rithöfundinn en ekki sig.

Jussanam vonast til þess að hún fái stuðning við málstað sinn frá þingmönnum. Einn stuðningsmanna hennar, á síðu sem hún heldur úti á facebook, hafi skrifað henni skilaboð um að einn þingmaður hafi sýnt málstað hennar áhuga. Sá þingmaður hefur hins vegar ekki haft samband við Jussanam enn sem komið er.










Tengdar fréttir

Jussanam: Vonbrigði

„Ég bjóst við bréfi í dag þannig að ég varð fyrir vonbrigðum. Ég held í vonina að bréfið hafi farið í póst í dag, en ef á að segja alveg eins og er þá held ég að málið sé enn í vinnslu,“ sagði Jussanam da Silva, brasilíska söngkonan sem bjóst við að fá í dag svar við umsókn um dvalarleyfi á Íslandi eins og fram kom í viðtali í Fréttablaðinu í gær.

Jussanam vill verða íslenskur ríkisborgari

Brasilíska söngkonan og frístundaleiðbeinandinn Jussanam Da Silva vinnur nú að því ásamt lögmanni sínum að sækja um ríkisborgararétt á Íslandi. Hún hefur enn ekki fengið svar frá dóms- og mannréttindaráðuneytinu um hvort hún fær hér atvinnuleyfi en ríkisborgararéttur myndi tryggja henni rétt til að starfa hér.

Jussanam fékk styrk frá StRv

Jussanam Da Silva hefur fengið styrk frá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar sem auðveldar henni lífsbaráttuna þennan mánuðinn. Jussanam bíður enn svars dóms- og mannréttindaráðuneytisins um hvort hún fær hér atvinnuleyfi. Jussanam starfaði sem frístundaleiðbeinandi hjá Hlíðaskjóli sem heyrir undir Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og greiddi hún því sín stéttarfélagsgjöld til Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar þar til hún var rekin þaðan vegna skorts á atvinnuleyfi. Styrknum fékk hún úthlutað úr styrktarsjóði félagsins eftir að ráðgjafi hafði bent henni á þann möguleika að sækja þar um.

Niðurdrepandi að lifa á ölmusu

Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir fyrir Jussanam Da Silva. Í marga mánuði hefur hún beðið eftir því að fá svar um atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi og hefur því þurft að framfleyta sér með aðstoð velgjörðarmanna. Hún sagði Sigríði Björgu Tómasdóttur frá lífinu á Íslandi, draumavinnunni á frístundaheimilinu Hlíðaskjóli og tónlistaráhuganum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×