Erlent

Enn finnast bein á ströndinni

Aðstæður á ströndinni eru afar erfiðar en óttast er að mun fleiri fórnarlömb séu enn ófundin á ströndinni.nordicphotos/afp
Aðstæður á ströndinni eru afar erfiðar en óttast er að mun fleiri fórnarlömb séu enn ófundin á ströndinni.nordicphotos/afp
Lögregluyfirvöld í New York grunar að raðmorðinginn sem leitað er í borginni geti verið fyrrverandi lögregluþjónn. Bein fundust í gær en ekki er búið að staðfesta að um enn eitt fórnarlamb morðingjans sé að ræða. Eitt lík af átta, sem fundist hafa á strönd á Long Island, er talið vera að barn, ekki eldra en átján mánaða.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum fundust fjögur lík í desember. Þau reyndust öll vera af vændiskonum sem saknað hefur verið allt aftur til ársins 2007. Fjögur lík fundust á dögunum sem ekki hafa verið borin kennsl á. Konurnar sem búið er að nafngreina höfðu allar auglýst þjónustu sína á vinsælli stefnumótasíðu sem ber nafnið Craigslist.

Bandarískar fréttastofur sögðu frá því í gær að aðferðir raðmorðingjans bentu til þess að hann þekkti í þaula starfsaðferðir lögreglu og að maður hefði hringt til systur eins fórnarlambsins úr síma sem hún var með þegar hún hvarf. Lögregla segir að morðinginn hafi greinilega verið virkur í nokkur ár. Hann skipuleggi morðin áður en hann leggur til atlögu, myrði konurnar á einum stað og losi sig við líkin á ströndinni, og jafnvel víðar.

Alríkislögreglan, sem tekur þátt í rannsókninni, telur ekki að morðinginn skeri sig úr; hann eigi fjölskyldu og vini og útilokað sé að greina morðæðið í fari hans. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×