Innlent

Mastur rís hjá Búrfellsvirkjun

Vonast er til þess að vindmælingar hér á landi skili þeim niðurstöðum að mögulegt verði að nýta vindorku til orkuvinnslu. mynd/image forum
Vonast er til þess að vindmælingar hér á landi skili þeim niðurstöðum að mögulegt verði að nýta vindorku til orkuvinnslu. mynd/image forum

Landsvirkjun er að reisa 50 metra hátt mastur fyrir vindmælingar í nágrenni Búrfellsvirkjunar. Framkvæmdirnar eru til að kanna möguleika á nýtingu vindorku á Suðurlandsundirlendinu.

Landsvirkjun er að reisa fjögur möstur til viðbótar á Suðurlandsundirlendinu. Þau eru 10 metra há, en venjulegir vindmælar hér á landi eru á milli 7 og 10 metrar á hæð.

Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, vonast til að mælingar geti hafist á næstu dögum.  „Mastrið hjá Búrfelli lítur vel út. Það er verið að setja upp mælana og vinnan við að reisa möstur og annað slíkt er í fullum gangi,“ segir Rán. „Þetta ætti að verða tilbúið á næstu dögum.“

Rán segir að rannsóknirnar verði bundnar við Suðurlandsundirlendið til að byrja með. Búist er við því að vindmælingar verði skráðar í eitt ár til þess að ná öllum breytileika vindsins.

Gagnaöflun fer fram með símafjarskiptum og verður hún stanslaus næsta árið.

Rán segir að til að byrja með verði einungis mælt á Suðurlandi. Þó séu margir aðrir staðir sem koma til greina.

„Það verður unnið úr þessum mælingum og á þeim grundvelli verða teknar ákvarðanir hvað verður gert,“ segir Rán. „En við erum bjartsýn á framhaldið.“ - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×