Innlent

Innlendar vörur hefðu hækkað mikið

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, vill vita hvort það sé afstaða Samtaka ferðaþjónustunnar að rýra beri afkomu landbúnaðar til að bæta hag ferðaþjónustunnar. Fréttablaðið/hari
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, vill vita hvort það sé afstaða Samtaka ferðaþjónustunnar að rýra beri afkomu landbúnaðar til að bæta hag ferðaþjónustunnar. Fréttablaðið/hari
„Það hefur fátt hjálpað íslenskum neytendum síðustu misseri eins og tollvernd,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna.

Án tollverndar í landbúnaði, segir hann, er engin ástæða til að ætla annað en að bændur, aðrir framleiðendur og aðilar á markaði hefðu hækkað verð til neytenda um sextíu prósent í takt við þá hækkun sem varð á innfluttum vörum þegar krónan féll 2008.

Spurður um rök fyrir þessu segir Haraldur að áður hafi því verið haldið fram að hátt matarverð væri verndartollum að kenna. „Hvers vegna hækkar þá ekki íslenska búvaran jafnmikið núna, þegar innflutta varan hækkar svona mikið?“ spyr Haraldur.

Haraldur bregst með þessu við orðum Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, sem lýsti í blaðinu í gær ákveðnum fyrirvörum gagnvart aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins, þar sem stjórnvöld hefðu gefið ýmis fyrirheit um sérlausnir fyrir bændur. Ferðaþjónustan væri hins vegar langþreytt á háu matarverði vegna ofurtolla á landbúnaðarvörum.

Haraldur segir að Erna geti „ekki bjargað afkomu ferðaþjónustunnar með því að afnema tollvernd í landbúnaði“. Spurður um tillögu Ernu, að í stað aðflutningsgjalda verði samkeppnishæfni bænda tryggð með því að gera rekstrarumhverfi þeirra betra, segist Haraldur ekki kunna leiðir til þess. „Nei, þetta er langskilvirkasta og gagnsæjasta leiðin.“ - kóþ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×