Innlent

Salka kvartaði ekki undan Sokkabandinu

salome@365.is skrifar
Mynd/Salka
„Starfsmenn Sölku höfðu ekki samband við okkur." segir Einar Logi Vignisson, auglýsingastjóri Ríkkisútvarpsins, en Vísir greindi í gær frá því að þáttarstjórnendum útvarpsþáttarins Sokkabandið hafi borist beiðni frá yfirmanni sínum um að stiklu þáttarins yrði breytt, í kjölfar þess að Salka hefði haft samband við auglýsingadeild RÚV.

Þóra og Kristín Tómasdætur stjórna útvarpsþættinum Sokkabandið. Stikla sem auglýsir þáttinn er nú í spilun snýr út úr bókatitlinum „Tíu árum yngri á tíu vikum" en hún hljóðar svo:

„Tíu árum yngri á tíu dögum -Svona rugl ertu blessunarlega laus við í Sokkabandinu; útvarpsþætti um stelpur með vit í kollinum."

Í viðtali við Vísi í gær sagði Þóra að þeim systrum hefði borist vinsamlegur póstur frá yfirmanni sínum þar sem því var beint til þeirra að stiklunni yrði breytt. Samkvæmt Þóru var pósturinn viðbragð við því að Bókaforlagið Salka hafði samband við auglýsingadeild RÚV og gerði athugasemdir við stikluna, en Salka gefur út bókina „Tíu árum yngri á tíu vikum" og er auk þess auglýsandi hjá Rúv, að sögn Þóru.

„Þetta er bara ekki rétt frétt." segir Einar hinsvegar. „Mér skilst á þeim starfsmanni sem sendi Þóru þennan póst að hún hefði verið beðin að gera fleiri trailera."

Þegar Vísir hafði samband við Hildi Hermóðsdóttur, eiganda Sölku, sagðist hún ekki kannast við að haft hefði verið samband við RÚV vegna stiklunnar, en hún kaus að tjá sig ekki frekar um málið að svo stöddu.

Í samtali við Þóru eftir birtingu fréttarinnar tók hún fram að hún hefði ekki verið beðin að breyta stiklunni. Hún hefði hinsvegar verið beðin að gera nýjar stiklur vegna þess að athugasemdir hefðu verið gerðar við þá sem nú er í spilun.


Tengdar fréttir

Sokkabandið beðið um að breyta auglýsingu

Bókaforlagið Salka kvartaði við RÚV vegna stiklu sem auglýsir útvarpsþátt á Rás 2, en stiklan inniheldur vísun í bókina "Tíu árum yngri á tíu vikum" sem forlagið gefur út. Þátturinn sem um ræðir heitir Sokkabandið og er stjórnað af Þóru og Kristínu Tómasdætrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×