Innlent

Fréttaskýring: Náttúruperlur eða hentugar námur?

Svavar Hávarðsson skrifar
MYND/Veiðimálastofnun
Lausleg könnun Veiðimálastofnunar árið 2008 leiddi í ljós að möl var tekin úr yfir 80 vatnsföllum á fimm ára tímabili. Malartekjan var mismikil eftir stöðum en mest nærri stærri þéttbýlisstöðum og stórum framkvæmdum. Mikið er um að framkvæmt sé án lögboðinna leyfa en Fiskistofa hyggst taka harðar á slíkum brotum með tilurð refsiheimilda í lögum.

Fiskistofa hefur sent framkvæmdaaðilum, sveitarfélögum og landeigendum bréf þar sem þeir eru minntir á réttindi og skyldur vegna framkvæmda við ár og vötn í samræmi við lög um lax- og silungsveiði. Tilefnið er að undanfarin ár hafa eftirlitsmenn Fiskistofu víða orðið varir við framkvæmdir í og við veiðivötn sem í mörgum tilfellum voru án lögboðinna leyfa. Þar hafa sveitarfélög meðal annars verið að verki, en þau bera stjórnsýslulega ábyrgð í þessum málum samkvæmt lögum.

Fiskistofa hyggst framvegis ganga hart fram vegna ólöglegra framkvæmda við og í veiðivötnum en með breytingum á lax- og silungsveiðilögum árið 2009 er nú refsivert að fara í framkvæmdir, þar með talda malartekju í og við ár og vötn, án tilskilinna leyfa.

Náttúran nýtur vafans?

Allt frá árinu 1994 hefur stjórnsýsla veiðimála reynt að stýra malartekju í veiðiám þannig að hún valdi sem minnstum skaða. Þannig hefur Veiðimálastofnun (VMST) markvisst reynt að sporna við malartekju úr ám, en sérfræðingar VMST birtu grein í fræðaþingsriti landbúnaðarins árið 2008 þar sem gerð er grein fyrir stöðu mála á þeim tíma. Þar kemur fram að tilraunir til að lágmarka neikvæð áhrif malartekju hafi skilað litlu. Malartekja er að mati sérfræðinga VMST oft byggð á hugsunarleysi eða vanþekkingu framkvæmdaaðilana eða, sem verra er, því sjónarmiði einu að malartekjan sé réttlætanleg vegna þess að hún sé fjárhagslega hagkvæm. Þá er skollaeyrum skellt við þeirri staðreynd að ný tækni og kunnátta í vinnslu jarðefna hefur stórlega dregið úr þörfinni fyrir malartekju úr ám, svo ekki sé minnst á umhverfisþætti eins og áhrif á lífríki ánna.

Þá er það ónefnt að undanfarin ár hefur verið mikil ásókn í möl og framkvæmdaaðilar verið tilbúnir að greiða hátt verð fyrir hana. Landeigendur hafa því verið undir miklum þrýstingi frá verktökum og jafnvel opinberum aðilum um að selja möl úr ám.

Hagnaðarvonin hefur því oft orðið umhverfissjónarmiðum yfirsterkari, sem varpar jafnframt ljósi á handvömm við lagasetningu árið 2006. Þá láðist mönnum að tilgreina viðurlög vegna brota sem snertu framkvæmdir við ár og vötn. Þetta varð til þess að til lítils hefur verið að kæra slíkar framkvæmdir. Úr þessu var hins vegar bætt með lagabreytingu í árslok 2009, sem útvíkkaði viðurlagaheimildir lax- og silungsveiðilaganna til slíkra brota.

Áhrif malartekju á ár

Helsta áhyggjuefnið er stórtæk malartekja úr ám sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir viðgang fiskistofna. Ár eru mjög misjafnar hvað varðar vistgerð og lífmagn og því skiptir miklu til hvaða vatnsfalls framkvæmdir ná. Mat VMST er að meginreglan eigi að vera sú að forðast malartekju eins og kostur er. Hins vegar er í sumum tilfellum mögulegt að taka efni úr eða við ár, án þess að varanlegur skaði hljótist af fyrir lífríki, en þá skiptir máli hvar í ánum er borið niður. Þetta þarf hins vegar að meta og útfæra í hverju tilviki fyrir sig, eins og Þórólfur Antonsson, fiskifræðingur á VMST, og kollegar hans benda á í grein sinni.

Bjarni Júlíusson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, segir það allt of algengt að farið sé í malarnám í veiðiám eða við þær og afleiðingarnar geti verið skelfilegar. "Þegar möl er tekin úr áreyri sem hefur legið óhreyfð í hundruð ára er stundum eins og allt breytist. Í næsta flóði eða vorleysingum höfum við séð hundruð tonna af möl fara af stað og jafnvel fylla og eyðileggja veiðistaði sem liggja þar fyrir neðan. Ég hef séð fallega veiðistaði hverfa eftir að þjóðvegur var færður til og það tók veiðistaðinn mörg ár að verða að einhverju aftur." Bjarni segir að ef illa takist til geti hrygning laxfiska misfarist og hrygningarstaðir eyðilagst, en dæmi um slíkt eru þekkt hér á landi.



Skýrar reglur

Árni Ísaksson, forstöðumaður lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, segir að samkvæmt lögum þurfi að leita eftir heimild Fiskistofu vegna allra framkvæmda við ár og vötn. "Það er meiningin að fá menn til að virða lögin en eftir lagabreytingu árið 2009 er þetta refsivert athæfi. Tilgangur bréfsins er að hnykkja á því hvað það þýðir að ganga illa um og framkvæma í leyfisleysi." Árni segir að óleyfileg framkvæmd sé ávallt kæranleg en sé um sannanlegan skaða að ræða vegna mannvirkjagerðar eða malarnáms geti komið til skaðabóta til handa viðkomandi veiðiréttareigendum samkvæmt sérstöku mati og því sé það mönnum klárlega til hagsbóta að hefjast ekki handa fyrr en fyrirhuguð framkvæmd hafi fengið faglega umfjöllun.

Umsókn til Fiskistofu skal fylgja úttekt sérfræðings í búsvæðum laxfiska um að óhætt sé að taka möl á umræddu svæði og jafnframt hvernig að því skuli staðið. Jafnframt er þess krafist að veiðifélagið við ána gefi umsögn. Framkvæmdaaðilar þurfa jafnframt framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags vegna malarnáms í samræmi við skipulagslög.

Mat á umhverfisáhrifum

Lax- og silungsveiðisvið Fiskistofu getur krafist þess að gerð sé líffræðileg úttekt á framkvæmdasvæðinu áður en veitt er leyfi fyrir malartekju. Oft liggja slíkar upplýsingar fyrir hjá rannsóknastofnunum, svo sem Veiðimálastofnun, ef um minni háttar malarnám er að ræða. Ef fyrirhuguð malartekja er umfram 50 þúsund rúmmetra eða nær til meira en 2,5 hektara svæðis ber framkvæmdaaðila að tilkynna fyrirhugað malarnám til Skipulagsstofnunar, sem metur hvort framkvæmdin þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Ef fyrirhuguð malartekja er hins vegar umfram 150 þúsund rúmmetra eða raskar fimm hektara svæði þarf hún lögum samkvæmt að undirgangast mat á umhverfisáhrifum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×