Innlent

Una líklega niðurstöðu Hæstaréttar

Frá fundi stjórnlagaþingmanna í desember.
Frá fundi stjórnlagaþingmanna í desember.

Litlar líkur eru á að látið verði reyna á hvort ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar til stjórnlagaþings sé kæranleg til dómstóla.

Um það var meðal annars rætt meðal 25-menninganna sem kjörnir voru til setu á stjórnlagaþing.

Líkt og fram hefur komið var úrskurður réttarins ákvörðun en ekki hefðbundinn dómur. Í því ljósi eru þau sjónarmið til að rétturinn hafi verið stjórnvald en ekki dómsvald og þar af leiðandi sé hægt að vísa ákvörðun hans til meðferðar dómstóla. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður hefur til dæmis viðrað slík sjónarmið.

Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, er meðal þeirra sem telja þá leið ófæra. Að teknu tilliti til raka hans og annarra hafa viðmælendur Fréttablaðsins úr röðum 25-menninganna sagt nánast engar líkur á að nokkuð verði aðhafst í þessa veru.

Enn er óvíst hvort Alþingi, eða eftir atvikum ríkisstjórnin, mun bæta þeim er kjörnir voru til stjórnlagaþings tjón eða óhagræði sem þeir kunna að hafa orðið fyrir vegna ógildingar kjörbréfa þeirra.

Forystumenn stjórnmálaflokkanna hafa ákveðið að setja á fót starfshóp til að greina þá stöðu sem upp er komin og leggja mat á hvernig ljúka beri því verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Þingflokkar voru í gær beðnir bréflega um að tilnefna fulltrúa í hópinn og taka við það verkefni tillit til jafnréttislaga. - bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×