Innlent

ECA ekki með herflugvélar - ekki hægt að banna verkefnið

Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, segir ekki hægt að neita hollensku félagi um ECA-verkefnið þar sem Ísland sé hluti af evróspka efnahagssvæðinu. Það snúist um að koma á fót viðhaldsstöð fyrir flugvélar og hafnar því að um herflugvélar sé að ræða.

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók ECA-verkefnið til umræðu á Alþingi í gær og sagði það snúast um að skapa á annað hundrað flugvirkjum og aðstoðarmönnum þeirra vinnu á Keflavíkurflugvelli. Árni sagði fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján L. Möller, hafa fylgt málinu vel eftir en ekkert hefði heyrst af málinu um hríð, og spurði Kristján um stöðu málsins. Kristján kvaðst ekki hafa tekið eftir neinni ákvörðun um að stöðva verkefnið og kvaðst vona að svo væri ekki.

"Þetta er hollenskt félag á hinu Evrópska efnahagssvæði og að mínu mati er ekki hægt að neita þeim um komu. Og þetta eru ekki herflugvélar. Þetta er viðhaldsstöð fyrir flugfélag sem er búið að taka allt hernaðarlegs eðlis úr en líta út eins og sambærilegar herflugvélar," sagði Kristján.

Árni Johnsen taldi þetta svar fyrrverandi samgönguráðherra athyglivert:

"Það voru merkileg tíðindi sem háttvirtur þingmaður Kristján Möller sagði um ECA-verkefnið á Keflavíkurflugvelli. Það var komið á fulla ferð, en hefur einhverra hluta vegna lent í kæligeymslum. Nú er ástæða til þess að finna út úr því og fylgja því eftir. Þetta varðar atvinnusköpun á því svæði landsins þar sem mest atvinnuleysi er," sagði Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×