Innlent

Nýsköpun hluti byggðastefnu ESB

Fullur salur fulltrúa hinna skapandi greina hlýddi á Stefán Hauk í gær. fréttablaðið/GVA
Fullur salur fulltrúa hinna skapandi greina hlýddi á Stefán Hauk í gær. fréttablaðið/GVA
Þótt Ísland njóti nú þegar flestra kosta menningar- og listasamstarfs við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn, gæti aðild landsins skipt hinar skapandi greinar máli að öðru leyti, segir formaður samninganefndar Íslands í aðildarviðræðunum, Stefán Haukur Jóhannesson.

Hann hélt í gær kynningarfund í utanríkisráðuneytinu með ýmsum fulltrúum hinna skapandi greina en þeir eru, meðal annars, listamenn og útgefendur.

Helsta atriðið er að landið fengi sæti við borðið þar sem stefna ESB í þessum málum er ákveðin. En Stefán nefnir fleiri hluti, svo sem málefni hinna dreifðu byggða.

„Í byggðamálum ESB er verið að leggja meiri áherslu á skapandi greinar. Byggðastefnan snýst ekki bara um að byggja nýja vegi heldur um ýmsa nýsköpun. Þetta gæti falið í sér aukna möguleika fyrir skapandi greinar,“ segir Stefán.

Annað atriði sé ýmislegt alþjóðasamstarf sem ESB taki þátt í. Kanna þurfi hvernig Íslendingar kæmu inn í það, gangi þjóðin í ESB.

Formaðurinn hefur haldið þónokkra álíka fundi, og segir þá þátt í þeirri viðleitni stjórnvalda að hafa ESB-viðræðuferlið sem opnast og gagnsæjast.- kóþ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×