Innlent

Forseti Íslands undir feldi vegna Icesave

Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson
Samstöðuhópurinn sem safnað hefur undirskriftum gegn nýja Icesave-samningnum mun afhenda forsetanum um 38 þúsund undirskriftir klukkan ellefu í dag en undirskriftirnar voru keyrðar saman við þjóðskrá í gær. Alls höfðu rúmlega 40 þúsund skrifað undir í gærkvöldi.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fékk Icesave-frumvarpið, sem samþykkt var á Alþingi á miðvikudag, til staðfestingar síðdegis sama dag. Ólafur íhugar nú hvort hann eigi að skrifa undir frumvarpið eða hafna að staðfesta það og vísa því þar með í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frumvörp sem samþykkt eru á Alþingi eru yfirleitt staðfest af forseta örfáum dögum frá því að þau berast. Ólafur Ragnar hefur þó tvívegis neitað að skrifa undir lög sem Alþingi hefur samþykkt.

Árið 2004 neitaði Ólafur Ragnar að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið svokallaða en þá liðu rúmir tveir mánuðir frá samþykkt Alþingis þar til forseti tilkynnti að hann hygðist ekki skrifa undir þau. Fyrir rúmu ári neitaði Ólafur Ragnar svo að skrifa undir fyrri lög um Icesave en þá liðu sex dagar frá samþykkt laganna.

Í báðum tilfellum fékk Ólafur Ragnar afhenda undirskriftalista gegn viðeigandi lögum. Í tilfelli fjölmiðlafrumvarpsins söfnuðust um 32 þúsund undirskriftir en í tilfelli gamla Icesave-samkomulagsins um 56 þúsund.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×