Innlent

Attac samtökin krefjast þess að forsetinn vísi Icesave til þjóðarinnar

Attac samtökin á Íslandi krefjast þess að forseti Íslands vísi Icesave samningnum til þjóðarinnar og tryggi með því lágmarkslýðræði.

Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að yfirstjórnendur Landsbankans hafi getað í mannfjandsamlegu kerfi fjármálaauðvalds og að áeggjan alþjóðlegra matsfyrirtækja opnað Icesave reikninga til að breikka fjármögnunargrundvöll sinn. „Íslenskur almenningur hefur ekkert haft með málið að gera og ber enga ábyrgð á þessu sköpunarverki fjármálafyrirtækja, aflandseyjarinnar City of London og ríkisvalds sem þjónar alþjóðaauðvaldinu.“

Þá segir að Attac á Íslandi hafni öllum samningum og krefst þess að Icesave verði rannsakað sem sakamál. „Einnig krefjumst við þess að öll gögn málsins verði gerð opinber og að þáttur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði rannsakaður sérstaklega. Við fordæmum ólýðræðislega og ógagnsæja meðferð íslenskra valdhafa á málinu. Framferði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar gengur þvert á yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarflokkanna um heiðarleika og lýðræðislega stjórnarhætti.“

Krafan um ríkisábyrgð á Icesave er íþyngjandi afturvirk lagasetning á íslenskan almenning að mati samtakanna. „Sömu aðilar og krefjast þess nú að skuldafjötrar séu lagðir á alþýðu landsins telja ekki koma til greina að afturvirk lög verði sett á fjársafnseigendur.“

„Baráttan gegn Icesave samningnum er hluti af alþjóðlegri baráttu almennings gegn því að kostnaðinum af kerfiskreppum fjármagnsins sé ævinlega velt yfir á þá sem enga ábyrgð bera,“ segir einnig. „Íslandsdeild Attacsamtakanna fylkir liði með alþýðu heimsins, sem nú rís upp í hverju landi á fætur öðru til að bylta af sér oki misskiptingar hins kapítalíska kerfis og krefst frelsis, efnhagslegra og félagslegra mannréttinda og síðast en ekki síst lýðræðis,“ segir ennfremur og að lokum:

„Félagar, sækjum fram sameinuð og kveikjum elda byltingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×