Innlent

Þingmenn VG funda í hádeginu - Leysum ágreining þó það hvessi

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson.

Þingflokkur Vinstri grænna fundar nú í hádeginu til að ræða þá stöðu sem upp er komin í þingflokknum eftir hjásetu þriggja þingmanna við atkvæðagreiðslu um fjárlög. Fundurinn hófst í hádeginu og þangað mættu ráðherrar og þingmenn.

Árni Þór Sigurðsson, þingflokksmaður VG, segist ekki búast við neinum átakafundi og vildi raunar meina að fjölmiðlar hefðu gert of mikið úr fundinum.

„Við erum vön því að skiptast á skoðunum. En þetta er bara eins og með fjölskyldur, það getur hvesst, en við leysum vonandi málið farsællega," segir Árni Þór.

Árni Þór sagðist vonast til þess að þingflokkurinn kæmi samhentur fram í þeim erfiðu verkefnum sem bíða afgreiðslu þingsins á nýju ári. Eftir því sem fréttastofa kemst næst eru þremenningarnir, Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir, ennþá þeirrar skoðunar að áherslur ríkisstjórnarinnar í fjárlagagerðinni hafi verið rangar.

Hins vegar munu menn ekki láta þann ágreining trufla önnur mál. Og hafa bæði Ásmundur Einar og Atli Gíslason lýst því opinberlega yfir að þeir muni verja ríkisstjórnina vantrausti komi til slíks og séu þannig stuðningsmenn hennar. Stöð 2 mun fjalla nánar um málið í kvöldfréttunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×