Íslenski boltinn

Umfjöllun: Keflavík og Breiðablik stigi nær öruggu sæti

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Nettóvellinum skrifar
Mynd/HAG
Keflavík og Breiðablik gerðu 1-1 jafntefli í Keflavík í kvöld í fjörugum fótboltaleik þar sem bæði lið lögðu allt í sölurnar til að ná í þrjú stig og fara langt með að tryggja sæti sitt í deildinni að ári.

Leikurinn fór rólega af stað en Keflavík gerði nokkrar atlögur að marki Breiðabliks úr föstum leikatriðum áðurn Breiðablik komst yfir úr sínu fyrsta skoti á 19. mínútu.

Leikurinn var í jafnvægi eftir markið en Keflavík átti í vandræðum með að skapa sér færi til að jafna nema eftir föst leikatriði og það var einmitt eftir horn sem Jóhann Birnir Guðmundsson jafnaði metin tveimur mínútum fyrir hálfleik.

Seinni hálfleikur var mun opnari en sá fyrri og fengu bæði lið urmul af færum til að tryggja sér sigur í leiknum. Breiðablik hitti ekki markið nema einu sinni úr öllum sínum færum og þá varði Ómar en hinu megin var Sigmar í miklu stuði í marki Breiðabliks. Liðin sættust því á jafntefli og halda Fram enn sex stigum frá sér nú þegar níu stig eru í pottinum.

Hefði annað liðið sigrað leikinn hefði það farið langt með að tryggja sæti sitt í deildinni á næsta tímabili og því má segja að staðan sé óbreytt hjá liðunum eftir leikinn. Bæði lið þurfa einn sigur til að sætið í Pepsí deildinni 2012 sé tryggt.

Keflavík-Breiðablik 1-1

0-1 Tómas Óli Garðarsson (19.)

1-1 Jóhann Guðmundsson (43.)

Nettóvöllur. Áhorfendur: 623

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson 7

Tölfræðin:

Skot (á mark): 12-5 (8-2)

Varin: Ómar 1 – Sigmar 7

Hornspyrnur: 8-4

Aukaspyrnur fengnar: 17-8

Rangstöður: 3-3




Fleiri fréttir

Sjá meira


×