Íslenski boltinn

Rit­stjóri 433.is tekinn við Dalvík/Reyni

Sindri Sverrisson skrifar
Hörður Snævar Jónsson er nýr þjálfari Dalvíkur/Reynis.
Hörður Snævar Jónsson er nýr þjálfari Dalvíkur/Reynis. Dalvík/Reynir

Knattspyrnulið Dalvíkur/Reynis mun leika undir stjórn Harðar Snævars Jónssonar á næstu leiktíð en hann hefur skrifað undir samning við félagið sem gildir til tveggja ára.

Hörður, sem verið hefur ritstjóri 433.is um árabil, tekur við Dalvík/Reyni af Dragan Stojanovic sem hætti eftir síðustu leiktíð. Hörður hefur síðustu misseri setið í stjórn Dalvíkur/Reynis.

Undir stjórn Dragans komst liðið óvænt upp úr 2. deild 2023 en féll svo þangað aftur eftir að hafa endað í neðsta sæti Lengjudeildarinnar í haust.

Hörður hefur enga reynslu af þjálfun í meistaraflokki en er með UEFA C þjálfaragráðu og að bæta við sig B-gráðunni.

Hann verður með mikinn reynslubolta með sér því Siguróli Kristjánsson, betur þekktur sem Moli, verður Herði innan handar sem tæknilegur ráðgjafi í þjálfarateyminu, og sinna ýmsum verkefnum fyrir Dalvík/Reyni. Búast má við að fleiri bætist í þjálfarateymið.

„Á Dalvík hafa ungir og efnilegir þjálfara áður fengið traustið við erum hvergi feimnir við að gefa efnilegum þjálfunum tækifæri. Ráðningin er í anda við þá stefnu sem félagið hefur markað sér undanfarin ár og hlökkum við mikið til baráttunnar í 2. deildinni næsta sumar,“ segir í fréttatilkynningu Dalvíkur/Reynis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×