Innlent

Líf nútímavæðir Kvennadeild Landspítalans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landspítalinn við Hringbraut. Mynd/ Vilhelm.
Landspítalinn við Hringbraut. Mynd/ Vilhelm.
Um 70% kvenna á Íslandi fæða börn sína á Kvennadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. Líf, styrktarfélag Kvennadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss, stendur fyrir landssöfnun þann 4. mars á Stöð 2. Markmið söfnunarinnar er að nútímavæða deildina sem um langt árabil hefur liðið fyrir bágan húsa- og tækjakost.

Í fréttatilkynningu frá LÍF kemur fram að rekstur kvennadeildarinnar hafi að miklu leyti byggst á gjafafé allt frá stofnun hennar árið 1975, en nú sé svo komið að þörf sé á stórátaki svo fæðingarþjónusta og kvenlækningar geti áfram staðist samjöfnuð við þjónustu annarra Norðurlanda á þessu sviði.

Líf efnir til kynningarfundar á söfnunarátakinu í gömlu vöggustofunni á deild 22 A á Kvennadeild Landspítalans, en hana hefur ekki verið hægt að nota um langt árabil vegna þrengsla og óþæginda. Fundurinn fer fram miðvikudaginn 16.febrúar næstkomandi klukkan 15:00 og verður boðið upp á heitt kakó og kringlur.

Á fræðslufundinum verður fjallað um ferli fæðinga á Landspítalanum og sýnt brot úr nýju kynningarmyndbandi um fæðingaþjónustu spítalans. Einnig verður fjallað um útkomu fæðinga á Kvennadeild Landspítala með því að skoða tölulegar staðreyndir úr Landskrá fæðinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×