Innlent

Mörður biður Vigdísi afsökunar á „harðneskjulegri fundarstjórn“

Mörður Árnason, formaður umhverfisnefndar Alþingis, hefur beðið Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins sem með honum í umhverfisnefnd, afsökunar.

Mörður óskaði eftir orðinu á þingfundi fyrir stundu þar sem hann sagðist vilja ræða um fregnir morgunsins þar sem Vigdís sagðist óska þess að víkja sæti í umhverfisnefnd þar sem hún gæti ekki starfað með Merði.

„Ég hef beðið hana afsökunar á harðneskjulegri fundarstjórn í morgun," sagði Mörður í pontu.

Hann vildi þó taka fram að hann telur orð Vigdísar um að hann geri upp á milli nefndarmanna vera vanhugsuð, en hún sagði Mörð koma misjafnlega fram við fulltrúa eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Þá sagðist Mörður vonast til að atvik af þessu tagi raski ekki starfi þingsins og vonar að Vigdís endurskoði ákvörðun sína um að víkja úr umhverfisnefnd.


Tengdar fréttir

Vigdís segir sig úr umhverfisnefnd - getur ekki unnið með Merði

Vigdís Hauksdóttir þingkona Framsóknarflokksins og fulltrúi í umhverfisnefnd hefur óskað eftir lausn frá störfum í nefndinni. Ástæðuna segir hún vera samstarfsörðugleikar við formann nefndarinnar, Mörð Árnason, Samfylkingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×