Innlent

Björgólfur bar silfurúr - ekki gull

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Thor og Sigurjón Árnason yfirgefa ráðherrabústaðinn. Mynd/ Valli.
Björgólfur Thor og Sigurjón Árnason yfirgefa ráðherrabústaðinn. Mynd/ Valli.
Björgólfur Thor Björgólfsson, einn af aðaleigendum Landsbankans fyrir hrun, gerir alvarlegar athugasemdir við frásagnir í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis af atburðum daginn áður en Neyðarlögin voru sett. Björgólfur var einn fjölmargra bankamanna sem mættu í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Þar ræddu þeir við forystumenn ríkisstjórnarinnar.

Rannsóknarnefnd Alþingis ræddi við Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, og Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra um atburðina. Þá var rætt við Jón Steinsson hagfræðing, sem var ráðgjafi Geirs Haarde forsætisráðherra um atburði í Ráðherrabústaðnum þann dag. Meðal annars ræddu ráðherrarnir um fund sinn við Björgólf. Björgólfur gerir athugasemdir við það að hafa ekki fengið að segja frá sinni hlið málsins.

Frægar eru lýsingar Össurar af fundinum sem ráðherrar, þar á meðal hann, áttu með Björgólfi Thor, Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, en þeir tveir síðarnefndu voru bankastjórar Landsbankans fyrir hrun:

Björgólfur kemur að bíl sínum eftir fundinn örlagaríka. Mynd/ Valli.
„Svo var þessi fundur búinn, Sigurjón var þarna, það voru snúðar á borðunum, skornir í tvennt, stórir snúðar. Sigurjón er nú munnstór maður og mikill og þegar þeir voru farnir út og hann var einn eftir þá tók hann svona hálfan snúð, tróð honum upp í andlitið á sér og skaut undan snúðnum þessari setningu: Ég hef ekki trú á þessu, ég hef ekki trú á þessu. Þá kom svona hönd með gullúri og kippti honum út," er haft eftir Össuri í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Björgólfur Thor segir að þessi hluti frásagnarinnar sé ekki einu sinni réttur. Hann hafi verið með silfurúr þessa helgi en ekki gullúr. „Ljóst er að þó svo ráðherra hafi bersýnilega verið með hugann við aukatriðin þetta kvöld þá tókst honum ekki einu sinni að greina þau rétt," segir Björgólfur Thor á vef sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×